Rafmagnið

Hvernig verður rafmagn til?

Rafmagn hefur verið til í náttúrunni frá upphafi og er til dæmis vel sýnilegt í eldingum, en það má einnig búa það til.

Rafmagn er náttúrufyrirbæri sem byggir á hreyfingu hlaðinna agna og til að búa það til þarf að beisla hreyfiorku þessarra hlöðnu agna.

Hlutir í kyrrstöðu hafa stöðuorku en hlutir á hreyfingu hafa hreyfiorku. Vatn hefur stöðuorku, en þegar það rennur eða fellur breytist stöðuorkan í hreyfiorku. Til að framleiða rafmagn notum við hreyfiorkuna til að snúa hverfli/túrbínu. Hægt er að snúa túrbínunni með hreyfiorku frá mismunandi orkugjöfum.

Í vatnsaflsvirkjunum er hreyfiorka vatns, eða fallhæðin, nýtt til að snúa túrbínunni. Í jarðhitavirkjunum er borað eftir vatnsgufu sem svo snýr túrbínunni og þar með er hægt að framleiða rafmagn.

Það er rafmagnslaust, hvað geri ég?

Við rafmagnsleysi er mikilvægt að athuga hvort orsökin sé innandyra eða hjá Norðurorku. Ef nærliggjandi hús eru myrkvuð (sem og götustaurar) er líklegt að bilunin sé í dreifikerfi okkar en ekki hjá þér og þá er ekkert annað að gera en að vona að rafmagn komist á sem fyrst. Okkar fólk er fljótt að bregðast við og gerir sitt allra besta til að laga óvæntar bilanir í kerfinu eins hratt og aðstæður leyfa. Hér á heimasíðu Norðurorku birtast tilkynningar um rafmagnsleysi undir flipanum Þjónusturof í dag. Ef þú ert í vafa getur þú einnig haft samband við okkur í síma 460 1300

Hér eru fleiri góð ráð við þjónusturofi.

Ef rafmagn er á nærliggjandi húsum er best að athuga hvort lekastraumsrofinn hefur slegið út. Hafi hann gert það er orsökin oft raftæki sem rétt áður var sett í samband. Reyndu að setja rofann inn aftur. Ef það tekst ekki eða hann slær aftur út er rétt að taka tæki úr sambandi og prófa aftur. Prófa næst að slá út öllum greinivörum og endurtaka. Gagni þetta ekki þarf að fá rafvirkja til þess að líta á lögnina. Einnig er rétt að skoða hvort öryggi hafi farið vegna of mikils álags.

Umfram allt verður að fara að öllu með gát.

Hvað eru sparperur?

Sparperur eru flúrperur sem passa í perustæði fyrir venjulegar glóperur og eru með nauðsynlegan rafbúnað innbyggðan. Sparperur gefa álíka mikið ljós og glóperur sem nota fjórum til fimm sinnum meira rafmagn. Vandaðar sparperur eiga að endast í meira en 8.000 klukkustundir og þola að minnsta kosti 20.000 kveikingar. Til samanburðar má geta þess að árið er 8.760 klukkustundir. Sparperur eru hins vegar enn sem komið er talsvert dýrari en venjulegar perur.

Hvað er kílóvattstund?

Kílóvattstund er mælieining fyrir orku. Orka er margfeldi af afli og tíma. Aflið er mælt í kílóvöttum (1000 vött er 1 kílóvatt), en tíminn er mældur í klukkustundum. Afl tækja er skráð á kenniskjöld tækis, eða merkiplötu þess. Þar er aflið gefið upp í kílóvöttum (kW) eða í vöttum (W). Ef afl er gefið upp í vöttum þarf að deila með 1000 til að finna hversu mörg kílóvött tækið tekur. Athugið að rugla kílóvöttum ekki saman við kílóvattstundir. Kílóvattstundir verða fyrst til þegar tækið er í gangi í einhvern tíma. Til að finna hversu mikla orku tækið tekur þarf að margfalda afl þess í kílóvöttum með þeim klukkustundum sem það er í gangi.

Hvar fæ ég tilkynningu um þjónusturof vegna framkvæmda

Við viðhald og framkvæmdir kemur fyrir að taka þurfi af rafmagnið í götum eða hverfum. Mínar síður er ein af okkar helstu upplýsingaleiðum. Því mælum við með að þú skráir farsímanúmer og netfang þar inn til að við getum sent þér skilaboð ef á þarf að halda t.d. vegna þjónusturofs. Er þitt númer skráð? Kannaðu málið á minarsidur.no.is

Hvað kostar full hleðsla á rafhjól?

Full hleðsla á rafhjól kostar 8.8 kr. 

Hver eru orkufrekustu rafmagnstækin?

Dæmigerð skipting orkunotkunar innan heimilis er eftirfarandi:

  • Þvottatæki 22%
  • Lýsing 17%
  • Kælitæki 19%
  • Eldunartæki 24%
  • Önnur notkun 18%.

Þess má geta að samkvæmt nýjustu útreikningum frá Hagstofunni frá árinu 2017 er orkunotkun heimila á einstakling mest á Íslandi í samanburði við önnur ríki innan Evrópu. Næstu lönd á eftir eru Svíþjóð og Finnland.

Aldur rafmagnstækja getur haft sitt að segja þegar kemur að orkunotkun. Þannig er 20 ára gamall ísskápur til að mynda mun orkufrekari en nýr ísskápur. Sá eldri getur eytt um 1200 kWh á ári meðan sá nýji eyðir aðeins 125 kWh á ári.

Líkt og fram kemur á vefsíðu húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru gerðar kröfur um visthönnun orkutengdra vara með tilskipun um orkumerkingar á rafmagnstækjum. Orkumerktar vörur í ríkjum Evrópu eru til dæmis hvítvörur og ljósgjafar. Hvítvörur eru m.a. kælitæki, með og án frystis, uppþvottavélar, þvottavélar og þurrkarar. Tilgangurinn með því að orkumerkja vörur er að gera orkunýtingu vörunnar sjónræna og gera neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun um hvaða vara notar minnsta orku. Nýr orkumerkimiði notar samræmda orkunýtniflokka, A til G. Orknýtniflokkarnir A+++, A++ og A+ munu hverfa smá saman eftir því sem viðeigandi reglugerðir taka gildi.

Hvað eru mörg kerfi raforku á Akureyri?

Í dreifikerfi rafmagns á Akureyri eru tvö mismunandi kerfi raforku.

TT spennukerfi: 230V á milli fasa í 3-fasa, þriggja leiðara kerfum.

TN-C spennukerfi: 230V á milli fasa og N-leiðara, og 400 V milli fasa í 3-vasa, fjögurra leiða kerfum.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá nokkurn veginn hvar skilin á milli kerfanna eru. Á gulu svæðunum er TT spennukerfi, en TN-C fyrir utan. Hægt er að smella á myndina fyrir betri upplausn.

Öll endurnýjun búnaðar miðast við að TT afleggist og að TN-C komi í staðinn. All nokkur árangur hefur náðst í því á síðustu árum, en ljóst er að mörg ár gætu liðið þangað til síðasta húsinu verður breytt. 

TN-C spennukerfi er almennt í öllum hverfum Akureyrar sem byggð eru eftir um 1970, t.d. ofan Mýrarvegar. Eldri hverfi neðan Mýrarvegar og á eyrinni eru að stórum hluta með TT spennukerfi. Sama á við um eitt svæði í nyrðri hluta Holtahverfis.

Geta öll hlaðið rafbíl heima hjá sér?

Stutta svarið er já. 

Hægt er að hlaða rafmagnsbíla við öll sérbýli og fjölbýli en hversu mikið afl er í boði fyrir bílhleðslu getur verið mismunandi. Eftirfarandi ástæður liggja þar að baki: 

  • Staðsetning húsnæðis skiptir máli þar sem tvö mismunandi spennukerfi eru á Akureyri. Hægt er að sjá frekari upplýsingar um spennukerfin og skiptingu svæða hér.
  • Hvort húsnæði er tengt einfasa eða þriggjafasa.

Hægt er að hlaða alla rafmagnsbíla á 230V en þá að hámarki með aflinu 3,7 eða 7,3kW. Það þýðir að á einni nóttu eða á 7 klukkustundum væri hægt að hlaða inn á bíl u.þ.b. 126 km drægni á 3,7kW fasttengdri stöð og 252 km á 7,3kW fasttengdri stöð. Úr 16A tengli, sem er venjuleg innstunga (ekki nota hana samt) væri hægt að hlaða 77 km drægni á bíl.

Það eru til stærri fasttengdar stöðvar sem hlaða bílana en það er ekki þar með sagt að gæðin séu meiri eða að það sé alltaf þörf fyrir slíkar stöðvar. Auk þess sem að slíkt myndi kalla á meiri framleiðslu (fleiri virkjanir), styrkingu flutningskerfi (fleiri og stærri raflínur) og styrkingu dreifikerfis (lagningu raflagna með tilheyrandi truflunum á umferð og raski í byggð).

Best er því að dreifa álaginu eins og hægt er, með því t.d. að hlaða bílinn á 7 klukkustundum (t.d. á næturnar þegar álagið er minna). Þannig geta notendur stuðlað að ábyrgri orkunotkun en samt skipt yfir í rafbíla.

Af hverju þarf ég að velja mér raforkusala?

Norðurorka sér eingöngu um dreifingu á rafmagni á Akureyri og er óheimilt að hafa aðkomu að vali notanda á raforkusala.

Neytendur hafa val um af hvaða fyrirtæki þeir kaupa raforkuna.
Þegar notandi hefur tilkynnt flutning í húsnæði á Akureyri þarf hann einnig að hafa samband við þann raforkusala sem hann kýs að eiga viðskipti við. Raforkusalinn sér um að koma á viðskiptum fyrir viðkomandi húsnæði.

Sjá nánar hér.

Aðrir flokkar